Af hverju líforkuver?

Kristín Helga Schiöth • ágú. 08, 2024

Af hverju líforkuver?


Í öllum lífmassa býr orka sem í dag fer að miklu til spillis. Þessa orku væri hægt að virkja í meira mæli en gert er, nýta í stað jarðefnaeldsneytis og færast nær markmiðum Íslands í loftslagsmálum.


Áskoranir í umhverfis- og loftslagsmálum samtímans krefjast þess að við hugsum ýmislegt upp á nýtt. Breytinga er þörf á viðhorfi til þess sem okkur þykir betra að hafa fjarri sjónum og fjarri huga, s.s. skólpi, seyru, aukaafurðum dýra og dýrahræja. En jafnvel í mesta óþverranum búa verðmæti, sé meðhöndlun rétt.


Markmið líforkuvers á Dysnesi við Eyjafjörð er að vinna verðmæti úr lífrænum straumum af ýmsum toga, á ábyrgan og markvissan hátt. Í fyrsta fasa verkefnisins er áhersla á uppbyggingu vinnslu fyrir dýrahræ. Í dag eru þeir innviðir ekki til staðar í landinu. Það var staðfest með neikvæðum úrskurði EFTA-dómstólsins í júlí 2022. Við honum þarf að bregðast vegna ímyndar, hreinleika og skilvirka útflutningsmöguleika íslenskra matvæla.


Þarf að brenna hræ?


Reglulega kemur upp sú umræða að Ísland skorti einfaldlega fleiri brennslur til að geta tekist á við förgun hræja. Það er algengur misskilningur að brennsla sé eina færa leiðin varðandi dýraleifar í efsta áhættuflokki. Í löndunum í kringum okkur hafa dýraleifar áratugum saman verið unnar í líforkuverum með mölun, þrýstisæfingu, fituskiljun og þurrkun. Sú vinnsla óvirkjar möguleg smitefni og afurðir í formi fitu og kjötmjöls eru framleiddar. Fituna má vinna áfram í lífdísil sem nýtist í stað jarðefnaeldsneytis, og kjötmjöl má brenna til orkuvinnslu. Á meðan það kostar mjög mikla orku og eldsneyti að brenna blautt efni, líkt og dýraleifar, snýr líforkuver dæminu við og framleiðir orkugjafa.


Finnum ekki upp hjólið


Í fyrsta áfanga líforkuvers á Dysnesi yrðu þær skyldur sem Ísland hefur undirgengist með EES-samningnum uppfylltar, auk loftslagsávinnings og innleiðingu hringrásarhagkerfis í landbúnaði. Í framhaldinu er stefnt að vinnslu annarra lífrænna strauma en dýraleifa í efsta áhættuflokki. Þannig væri hægt að samnýta innviði, krafta og hugvit til enn frekari verðmætasköpunar.


Verkefnið sækir fyrirmynd og ráðgjöf til nágrannalanda, einkum Finnlands og Noregs, sem búa við mjög svipaðar aðstæður og við, sem og sama regluverk. Þar hefur verið leitað til helstu sérfræðinga á sviði fullnýtingar dýraleifa. 


Miðlæg starfsemi hjá frændum okkar


Síðastliðið haust voru löndin tvö heimsótt og skoðað hvernig málaflokki dýraleifa er þar sinnt. Athygli vakti að í báðum löndum er um miðlæga starfsemi að ræða, þar sem efni er sótt um land allt til vinnslu og ferlarnir samnýttir. Oft er um að ræða verulegar vegalengdir á Íslandi, en síst eru þær styttri í Finnlandi þar sem öll dýrahræ eru sótt heim á bæi og komið til vinnslu á einum stað.


Í vinnslum Finna og Norðmanna er matvælaframleiðsla í næsta nágrenni, þar sem glatvarmi og koldíoxíð úr vinnsluferlinu er notað til vaxtarhvata grænmetis, auk þess sem unnið var lífgas og áburðarefni úr efni af lægri áhættuflokki. Uppbygging í þessum anda er vonandi það sem koma skal hjá líforkuveri á Dysnesi, umhverfi, atvinnulífi og samfélaginu öllu til hagsbóta.


Höfundur greinar er framkvæmdarstjóri Líforkuvers ehf., Kristin Helga Schiöth.


Greinin birtist í Morgunblaðinu þann 13. júlí 2024


Eftir Katla Eiríksdóttir 12 Aug, 2024
„Alvarlegasta birtingarmyndin fyrir hagstjórn Íslands væri að ESA myndi stöðva útflutning matvæla innan svæðsins, þar á meðal á sjávarafurðum. Gríðarlegir hagsmunir eru undir.” Þetta mælti Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir meðal annars í Hofi við opnun vefsíðu Líforkuvers ehf. Um 40 manns voru samankomin í Hofi á þann 6. ágúst þegar vefur Líforkuvers ehf. var formlega kynntur. Heimir Örn Árnason opnaði fundinn með örlítilli innsýn inn í störf stjórnar Líforkuvers ehf, áður en hann kynnti Kristínu Helgu Schiöth, framkvæmdarstjóra Líforkuvers ehf á svið. Kristín Helga fór yfir hvar verkefnið er statt og undirstrikaði hversu stór varða það væri að nú væri vefsíðan opin. Unnið hefur verið gríðarlega gott starf síðustu mánuði við að svara þeim spurningum sem upp hafa komið varðandi líforkuverið, en enn er þó nokkrum spurningum ósvarað. Mikil vinna væri því framundan en teymið sem stendur að baki verkefninu og ráðgjafar þeirra væru spennt að takast á við þessa áskorun. Að lokum brauð Kristín Helga Bjarkeyju Olsen matvælaráðherra að koma upp og segja nokkur orð. Bjarkey byrjaði á að óska hluteigendum og öllum viðstöddum til hamingju með þann áfanga sem unninn er. Matvælaráðherra fór vel yfir ástæðu þess hvers vegna uppbygging líforkuvers er gríðarlega mikilvæg fyrir Ísland, þar má helst nefna hættuna við að fara ekki eftir lögum og reglum EES löggjafar og setja útflutning landsins í hættu, svo ekki sé minnst á samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda. Bjarkey lauk sínu erindi á þessum nótum “ Í dag erum við stolt af því að koma að þessum áfanga og ég vil þakka öllum þeim sem hafa komið að þessu mikilvæga verkefni. Saman munum við halda áfram að vinna að því að tryggja hreint og öruggt umhverfi fyrir komandi kynslóðir.” Við viljum þakka öllum þeim sem mættu á fundinn og við hlökkum til áframhaldandi samtals um verkefnið.
Eftir Kristín Helga Schiöth 08 Jul, 2024
Landsáætlun um útrýmingu sauðfjárriðu hefur verið undirrituð af matvælaráðherra, formanni Bændasamtaka Íslands og forstjóra Matvælastofnunar, en stofnanirnar þrjár hafa unnið sameiginlega að áætluninni. Áætlunin gerir ráð breyttri nálgun við útrýmingu riðuveiki frá því sem verið hefur, horft er frá því að reyna að útrýma riðusmitefninu sjálfu en megináhersla lögð á að útrýma veikinni með ræktun fjárstofns sem ber verndandi arfgerðir gegn smitefninu ásamt áframhaldandi aðgerðum til að hefta mögnun og dreifingu þess. Mikilvægur þáttur í að hefta mögnun og dreifingu smitefnis er að koma á heildstæðu söfunarkerfi dýrahræja á landsvísu og að beiðni matvælaráðuneytisins og umhverfis- orku og loftslagsráðuneytisins var Líforkuveri ehf. falið að vinna tillögu að útfærslu fyrir samræmt söfnunarkerfi dýrahræja og sláturúrgangs frá bæjum (CAT1) með það að markmiði að koma efninu í viðeigandi úrvinnslu eða förgun. Tillagan byggir á hugbúnaði og verklagi sem notað er bæði í Finnlandi og Noregi og uppfylla kröfur EES-reglna um meðhöndlun aukaafurða dýra sem ekki eru ætlaðar til manneldis. Tillagan er unnin í samstarfi við finnska ráðgjafafyrirtækið GMM Honkajoki Group og markmiðið er að kerfið verði að fullu innleitt fyrir upphaf ársins 2026. Hér má lesa landsáætlunina í heild sinni.
Eftir Kristín Helga Schiöth 15 Jun, 2024
Frétt Morgunblaðsins um úthlutun fyrstu lóðar á Dysnesi til Líforkuvers ehf. frá 13. júní 2024.
Eftir Kristín Helga Schiöth 14 Jun, 2024
Ný aðgerðaáætlun í loftslagsmálum var kynnt þann 14. júní 2024. Eins og fram kemur í tilkynningu Stjórnarráðsins hefur mikil vinna átt sér stað undanfarin tvö ár við uppfærslu áætlunarinnar og inniheldur hún 150 loftslagsaðgerðir. Ein þeirra er samvinnuverkefni um uppbyggingu nauðsynlegra innviða svo líforkuver í Eyjafirði geti tekið við lífrænum úrgangi og efni sem í dag er urðað ólöglega, t.d. dýrahræ, þar sem enginn annar farvegur er til staðar. Samkvæmt áætluninni er markmiðið að árið 2028 geti líforkuver tekið við 10. þúsund tonnum af lífrænu efni sem annars endaði í urðun. Aðgerðaáætlun í loftslagsmálum má nálgast í heild sinni á vefnum www.co2.is
Eftir Kristín Helga Schiöth 06 Jun, 2024
Frétt sem birtist í Vikublaðinu þann 6. júní 2024 þar sem greint var frá úthlutun lóðar á Dysnesi undir starfsemi líforkuvers og fjallað um fyrirhugaða starfsemi.
Eftir Kristín Helga Schiöth 16 Feb, 2024
Umhverfis- orku og loftslagsráðuneytið, Matvælaráðuneytið og SSNE hafa sett af stað vinnu við útfærslu fyrir samræmt söfnunarkerfi dýraleifa á landsvísu, í áhættuflokki 1, með það að markmiði að efnið komist í viðeigandi úrvinnslu eða förgun. Með þessari aðgerð er brugðist við úrskurði eftirlitsstofnunar EFTA um að Ísland hafi ekki uppfyllt skyldur sínar gagnvart EES samningnum þegar kemur að því að tryggja að dýraleifum í efsta áhættuflokki sé safnað. Tillaga að söfnunarkerfi verður unnin í samstarfi við Líforkuver ehf. og finnska ráðgjafafyrirtækið GMM, sem hefur áralanga reynslu af söfnun og meðhöndlun dýraleifa. Byggt verður á verklagi sem notast er við bæði í Finnlandi og Noregi, en SSNE skipulagði kynnisferð til þeirra landa á síðasta ári þar sem hag- og fagaðilar fengu kynningar á söfnun, meðhöndlun og vinnslu á dýraleifum í efsta áhættuflokki í báðum löndum. Söfnun og rétt meðhöndlun dýraleifa er mikilvægur liður í innleiðingu hringrásarhagkerfis; urðun dýrahræja hefur í för með sér umtalsverða losun gróðurhúsalofttegunda og unnt er að vinna orkugjafa úr efninu sem dregur úr notkun jarðefnaeldsneytis. Verkefnið er þó ekki síst mikilvægt þegar kemur að heilbrigði manna og dýra, ímyndar íslensks landbúnaðar og til að draga úr líkum á útbreiðslu búfjársjúkdóma. Það er því sérlega ánægjulegt að bæði ráðuneyti umhverfismála og matvæla sameinist um að vinna tillögu að útfærslu kerfisins í samstarfi við SSNE. Nánar má lesa um verkefnið á vef Stjórnarráðsins.
Eftir Kristín Helga Schiöth 19 Jan, 2024
Frétt fengin af vef SSNE. Verkefni um uppbyggingu líforkuvers í Eyjafirði hefur verið rekið undir stjórn SSNE um nokkuð skeið, með stuðningi Umhverfis- orku og loftslagsráðuneytisins og í samstarfi við Vistorku, Eim, auk þess sem utanaðkomandi ráðgjafar, hérlendis sem erlendis hafa komið að. Verkefnið hefur nú öðlast sjálfstætt líf utan veggja SSNE, þar sem félagið Líforkuver ehf. hefur verið stofnað með það að markmiði að vinna að uppbyggingu líforkuvers á Dysnesi. Í stjórn félagsins sitja fulltrúar Umhverfis- orku og loftslagsráðuneytisins, Hörgársveitar, Akureyrarbæjar, SSNE og sláturleyfishafa. Undanfarið ár hefur verkefnið verið leitt af Kristínu Helgu Schiöth, verkefnastjóra í umhverfismálum hjá SSNE. Hún hefur verið ráðin af stjórn Líforkuvers ehf. til að stýra verkefninu áfram. Við hjá SSNE þökkum Kristínu Helgu fyrir samstarfið fram að þessu, óskum henni velgengni í verkefninu framundan og hlökkum til samstarfsins á nýjum vettvangi. Uppbygging líforkuvers á Dysnesi er mikilvægur þáttur í innleiðingu hringrásarhagkerfis á svæðinu sem og grænni innviða- og atvinnuuppbyggingu á Norðurlandi eystra. Við hlökkum til að fylgjast með verkefninu sem hefur verið fóstrað hjá okkur vaxa áfram undir nýrri stjórn.
Eftir Kristín Helga Schiöth 03 Nov, 2023
Velheppnaður íbúafundur var haldinn í íþróttahúsinu á Þelamörk í gær, fimmtudaginn 2. nóvember. Á fundinum var íbúum sveitarfélagsins Hörgársveitar kynntar hugmyndir um uppbyggingu líforkuvers á Dysnesi. Fundurinn var vel sóttur, en um 70 manns hlýddu á Vigfús Björnsson skipulagsfulltrúa sveitarfélagsins, Kristínu Helgu Schiöth verkefnastjóra líforkuvers hjá SSNE, og Karl Karlsson ráðgjafa verkefnisins. Snorri Finnlaugsson, sveitarstjóri Hörgársveitar, stýrði fundinum en eftir kynningarnar fóru fram pallborðsumræður. Þar voru auk frummælenda og Iðunn María Guðjónsdóttir fulltrúi matvælaráðuneytis og Kjartan Ingvarsson fulltrúi umhverfis- orku og loftslagsráðuneytis. Í kynningum Kristínar Helgu og Karls kom meðal annars fram að líforkuverið gæti verið svar við vanda Íslands þegar kemur að vinnslu dýraleifa úr áhættuflokki 1, þ.m.t. hræ úr sveitum. Íslandi skortir innviði til að takast á við þetta efni á löglegan og ábyrgan hátt, en einungis ein brennsla er á landinu sem hefur starfsleyfi til að brenna dýraleifar. Vegna þessa er stærsti hluti dýraleifa í dag urðaður, ýmist heima á bæjum eða á urðunarstöðum með starfsleyfi. Slík urðun dýraleifa hefur samt sem áður verið ólögleg um árabil og hefur nú fallið EFTA dómur á Ísland vegna þess hvernig staðið er að málum í dag. Í lok október stóð SSNE fyrir kynnisferð til Finnlands og Noregs. Í ferðinni var hag- og fagaðilum boðið að kynna sér hvernig söfnun, móttöku og vinnslu dýrahræja er háttað í þeim löndum. Sú vinnsla sem lagt er til að verði reist á Dysnesi er algjörlega sambærileg þeim sem skoðaðar voru í Finnlandi og Noregi, einungis smærri. Vinnslan sem teiknuð hefur verið upp á Dysnesi gæti samt sem áður annað öllum dýrahræjum á landinu, þ.m.t. álagstoppum í sláturtíð og ef upp koma smitsjúkdómar sem krefjast niðurskurðar búfjár eða eldisfisks. Þrátt fyrir að hér á Íslandi sé aðeins um lítið magn efnis að ræða er nauðsynlegt að til séu viðeigandi úrræði til að vinna rétt úr efninu. Það er bæði vegna þeirra skuldbindinga sem Ísland hefur undirgengist með EES-samningnum, og ekki síst til að tryggja megi heilbrigði dýra og manna. Líforkuverið sem lagt er til að rísi á Dysnesi uppfyllir kröfur um bestu mögulegu tækni þegar kemur að lyktarstjórnun og mengunarvörnum. Að auki er horft til krafna sem gerðar verða til vatnshreinsunar á allra næstu árum, en þær kröfur eiga einnig við um Ísland. Afurðir versins verða í formi orkugjafa og vinnsluferlar eru skýrir; eftir að efnið er malað niður í ákveðna kornastærð fer það í gegnum þrýstisæfingu og svo unnið áfram í hráfitu annars vegar og kjötmjöl hins vegar. Með þessari leið er smitefni óvirkjað, en hægt er að nota fituna áfram til lífdísilframleiðslu og kjötmjölið til orkunýtingar sem brennsluefni. Góðar umræður sköpuðust á fundinum og fjölda spurninga svarað er varða skipulag svæðisins, möguleg áhrif á nærsvæðin, hreinlæti og smitvarnir - svo dæmi séu tekin. Fulltrúar ráðuneytanna tóku einnig til máls, en umhverfis- orku og loftslagsráðuneytið hefur stutt vel við undirbúning verkefnisins, enda fellur það vel að markmiðum Íslands í loftslagsmálum og stuðlar að innleiðingu hringrásarhagkerfis. Fulltrúi Matvælaráðuneytisins tók undir orð frummælenda um hversu brýnt það er að finna lausn við dýraleifavandanum á landsvísu og fagnaði því að verið væri að horfa til þeirra aðferða sem kynntar voru á fundinum. Umræðan á Íslandi hefur lengi verið á þá leið að brennsla sé eina leiðin til að losna við efnið, en eins og dæmin frá Finnlandi og Noregi sýna svo vel, er hægt að vinna efnið þannig að úr verði verðmæti í stað þess að eyða orku í að brenna það með tilheyrandi umhverfisáhrifum. Á síðasta fundi sveitarstjórnar Hörgársveitar sem haldinn var þann 31. október s.l. kom fram að sveitarstjórnin er jákvæð fyrir því að starfsemin rísi í sveitarfélaginu. Þá hefur þróunarfélag um verkefnið hefur verið stofnað undir heitinu Líforkugarðar ehf. Þróunarfélagið nú þegar skrifað undir viljayfirlýsingu ásamt Hafnasamlagi Norðurlands, sem eru landeigendur að Dysnesi. Í viljayfirlýsingunni skuldbinda báðir aðilar sig til áframhaldandi samtals um uppbyggingu líforkuvers á Dysnesi.
Eftir Kristín Helga Schiöth 27 Oct, 2023
Vikuna 16. - 20. október var farin kynnisferð til Finnlands og Noregs þar sem hag- og fagaðilum var boðið að kynna sér starfsemi líforkuvera í báðum löndum. Ferðin var skipulögð af verkefnastjóra SSNE, Kristínu Helgu Schiöth, og ráðgjafanum Karli Karlssyni sem hefur verið SSNE innan handar í undirbúningi líforkuvers á Dysnesi. Þátttaka í ferðina var góð, en með í för voru 12 manns fyrir utan fararstjóra. Meðal þátttakenda voru fulltrúar Hörgársveitar, fulltrúi landeigenda, opinberir eftirlitsaðilar og fulltrúar annarra landshlutasamtaka. Markmið ferðarinnar var að sjá hvernig Finnland og Noregur standa að söfnun, mótttöku og vinnslu á dýraleifum/hræjum - en fyrsti fasi Líforkugarða á Dysnesi snýr einmitt að þeirri vinnslu. Afurðir vinnslunnar eru í formi orkugjafa; kjötmjöls og fitu sem áfram má vinna í lífdísil. Í Finnlandi er tekið við efni af þessu tagi (ABP CAT1) á einum stað í landinu, og var vel tekið á móti Íslendingunum í höfuðstöðvum Honkajoki/GMM. Í Noregi voru gestgjafarnir Biosirk, en þátttakendur heimsóttu höfuðstöðvar fyrirtækisins í Hamar, þar sem önnur af tveimur vinnslustöðvum CAT1 úrgangs á öllu landinu er starfrækt. Hjá Biosirk gafst þátttakendum einnig tækifæri til að ræða við Mattilsynet (norska MAST), spyrja út í þátt eftirlitsaðila og fræðast um hvernig söfnun og vinnsla dýraleifa blasir við bændum. Ferðin gekk afskaplega vel og urðu þátttakendur margs vísari um söfnunarkerfi, smitvarnir, sýnatökur, loft- og vatnshreinsun, vinnsluferla og notkun afurðanna sem úr vinnslunni koma. Starfsfólk SSNE hefur unnið ötullega að undirbúningi líforkuvers á Dysnesi undanfarið ár með aðstoð ráðgjafa, en Frumhagkvæmnimat líforkuvers var kynnt á fundi í Hofi þann 1. nóvember 2022. Virkt samtal hefur verið milli sveitarfélaga á svæði SSNE, ráðuneyta sem fara með málaflokkinn og annarra hagaðila. Sveitarfélögin að baki SSNE hafa sammælst um aðstofna þróunarfélag um verkefnið og var þróunarfélagið Líforkugarðar ehf stofnað fyrr í haust. Félagið hefur síðan sótt um lóð á Dysnesi undir fyrsta fasa líforkugarðanna.
Eftir Kristín Helga Schiöth 01 Jan, 2023
Frétt fengin af vef SSNE. Skýrslan var kynnt fyrsta nóvember síðastliðinn og afhent sveitarfélögunum og ráðuneyti 22. desember. Skýrslan er frummat á forsendum þess að koma á fót líforkuveri á Norðurlandi eystra. Í líforkuveri væru unnin verðmæti úr lífrænum úrgangi og búfjáráburði. Megin afurðir eru metan, lífdísill og molta sem nýtist sem eldsneyti og jarðvegsbætir/áburður. Verkefnið er í raun nú þegar hafið á svæðinu. Orkey, framleiðir lífdísil úr matarolíu, Molta ehf. framleiðir moltu úr lífrænum úrgangi og Norðurorka hf. framleiðir metangas úr hauggasi úr aflögðum sorphaugum á Glerárdal. Hugmyndin um líforkuver er útvíkkun á því sem við erum nú þegar að gera vel svo í verkefninu liggur tækifæri til að halda áfram að vera í fararbroddi og til fyrirmyndar í meðhöndlun lífræns úrgangs á landinu. Fyrir áhugasöm má finna einfalda kynningu á Hvað er líforkuver? á vef Vistorku Við hvetjum einnig öll sem hafa áhuga að kynna sér skýrsluna. Hér má lesa skýrsluna: Frumhagkvæmnimat líforkuvers.
Share by: