Spurt & svarað um líforkuver

Almennt um líforkuver


  • Hvað er líforkuver?

    Líforkuver er vinnsla þar sem tekið verður við lífrænum straumum og unnin úr þeim verðmæti í formi orkugjafa og jarðvegsbætis.


    Í fyrsta fasa uppbyggingar líforkuvers er einungis horft til þess að taka við dýraleifum í hæsta áhættuflokki (CAT1), sem lögum samkvæmt þarf að meðhöndla á ákveðinn hátt. Undir hæsta áhættuflokk falla til dæmis hræ jórturdýra eldri en 12 mánaða og áhættuvefur sem skorinn er frá við vinnslu í sláturhúsum. 


    Líforkuver mun taka við þessu efni og vinna úr því verðmæti í formi orkugjafa; fitu sem áfram má vinna í lífdísil og kjötmjöl sem má brenna til orku. Með tilkomu líforkuvers verða í fyrsta skipti unnin verðmæti úr CAT1 efni, sem í dag er brennt að hluta og að mestu urðað.


    Vinnsla efnisins í líforkuverinu er örugg og fylgir gagnreyndum aðferðum, þar sem dýraleifarnar eru malaðar í ákveðna kornastærð, settar í gegnum þrýstisæfingu til að óvirkja mögulegt smitefni og fitan skilin frá þurrefni. 


  • Af hverju líforkuver?

    Á Íslandi hefur skort innviði til að taka við og vinna úr dýraleifum í efsta áhættuflokki á öruggan og umhverfisvænan hátt. Í dag er megnið af dýrahræjum urðuð, sem veldur bæði smithættu og losun gróðurhúsalofttegunda.  


    Með uppbyggingu líforkuvers verður í fyrsta sinn unnt að vinna dýraleifar í samræmi við hugmyndafræði hringrásarhagkerfis hér á landi. 


    Með uppbyggingu líforkuvers eru lagalegar skyldur um vinnslu dýraleifa uppfylltar, á sama tíma og verðmæti í formi orkugjafa eru framleidd. 


  • Hvað er átt við með CAT1 eða hæsta áhættuflokki dýraleifa?

    Í regluverki er dýraleifum skipt upp í 3 áhættuflokka og CAT1 er efsti áhættuflokkurinn. Það er mismunandi hvernig leyfilegt er að meðhöndla efnið eftir því í hvaða áhættuflokki það lendir. 


    Sem dæmi má taka að kjötmjöl sem unnið er úr CAT2 og CAT3 efni má nýta sem áburð á tún, en vegna varúðarráðstafana er ekki leyfilegt að nýta kjötmjöl úr CAT1 efni sem jarðvegsbæti, þar sem það skal ekki eiga leið í fæðukeðjuna á ný. 


    Meirihluti CAT1 efnis sem fellur til hér á landi eru jórturdýr eldri en 12 mánaða. Ef að dýraleifar úr mismunandi áhættuflokkum blandast saman fellur allt efnið sjálfkrafa undir hæsta áhættuflokkinn og ber að meðhöndla samkvæmt því.    


    Meira um áhættuflokkana
  • Er ekki betra að brenna hræin?

    Það er vissulega löglegt að brenna dýrahræ, en það er ekki skynsamleg meðferð efnisins þegar horft er til innleiðingar hringrásarhagkerfis og orkunýtingar.


    Dýrahræ eru að stærstum hluta vatn og eðli málsins samkvæmt kostar mikla orku að brenna blautt efni. Með vinnslu í líforkuveri eru smitefni óvirkjuð og eftir standa orkugjafar.


    Í löndunum í kringum okkur hefur vinnsla dýrahræja í líforkuverum verið stunduð um árabil, og jafnvel í áratugi. 


  • En af hverju ekki að urða hræin?

    Það er algengur misskilingur að það sé náttúrulegast að grafa hræ heima á bæjum eða urða þau á viðurkenndum urðunarstöðum. Þegar dýrahræ rotna við loftfirrtar aðstæður eins og við urðun, verður til gastegundin metan. Metan er mjög öflug gróðurhúsalofttegund (meira en 28 sinnum öflugri en CO2). 


    Aðgerðir sem koma í veg fyrir urðun dýrahræja eru því gríðarlega mikilvægar fyrir loftslagsbókhald Íslands, en urðun úrgangs á stærstan þátt í losun gróðurhúsalofttegunda sem á sér stað við meðhöndlun úrgangs hérlendis. 

  • Hefur svipuð vinnsla verið sett upp annarsstaðar?

    Líforkuver eru ekki ný af nálinni og eru víða í Evrópu. Við verkefnið á Dysnesi er sérstaklega horft til reynslu Finnlands og Noregs, þar sem í Finnlandi er eitt líforkuver fyrir landið allt fyrir CAT1 efni en í Noregi eru þau tvö talsins. 


    Tæknin sem notuð verður í Líforkuverinu á Dysnesi er sú sama og er notuð í Noregi og Finnlandi, því er verið að nýta þekkta tækni sem hefur virkað vel. 


  • Hver eru að baki Líforkuveri ehf?

    Í stjórn félagsins sitja fulltrúar umhverfis- orku og loftslagsráðuneytisins, Hörgársveitar, Akureyrarbæjar, Samtaka sveitarfélaga og atvinnuþróunar á norðurlandi eystra og Kjarnafæði/Norðlenska. 

Efni og söfnun

  • Hvaða efni tekur líforkuver við?

    Líforkuverið mun til að byrja með aðeins taka við dýrahræjum og aukaafurðum dýra sem falla undir áhættuflokka 1 og 2. Meirihluti efnsins verða sjálfdauðar skepnur sem safnað verður til vinnslu. 

  • Hversu miklu magni efnis getur líforkuverið tekið við?

    Gert er ráð fyrir að 3.000 - 4.000 tonn berist í Líforkuverið árlega. Hinsvegar er verksmiðjan hönnuð til þess að taka við allt að 10.000 tonnum til að ráða við álagstoppa, t.d. ef upp kæmi riða. 


    Líforkuverið getur því tekið við dýrahræjum og efni í efsta áhættuflokki af landinu öllu.


  • Hvernig verður dýrahræjum safnað?

    Llitið er til nágrannalanda okkar þegar kemur að söfnun dýrahræja. Þar eru sérstakir bílar, með lokuðum og lekaheldum gámum, sem keyra á milli bæja og safna hræjum með reglubundnum hætti.


    Umhverfis- orku og loftslagsráðuneytið ásamt matvælaráðuneytinu hafa látið vinna tillögu að samræmdu söfnunarkerfi dýraleifa og nú er unnið áfram að útfærslu þeirra tillagna. Flutningar dýrahræjanna munu samræmast reglugerð um meðhöndlun dýraleifa og fylgja leiðbeiningum Matvælastofnunar. 


  • Er í lagi að flytja dýrahræ yfir sóttvarnaveikilínur?

    Á Íslandi gildir sama löggjöf um meðhöndlun dýraleifa og í löndum Evrópusambandsins, þar sem dýrahræ eru keyrð til viðunandi vinnslu um langan veg. Að sjálfsögðu skiptir miklu máli að gámar séu lekaheldir og að réttu verklagi verði fylgt við söfnunina.


    Það má einnig benda á að á hverju hausti er lifandi fé sótt víða að til slátrunar og yfir sóttvarnaveikilínur, og ekki er ástæða til að líta flutning hræja öðrum augum. 


  • Tekur líforkuverið bara við dýrahræjum og aukaafurðum dýra?

    Já, líforkuverið er einungis hannað til að taka við dýrahræjum og aukaafurðum dýra í áhættuflokki 1 og 2. Búnaður líforkuversins er sérstaklega hannaður með vinnslu dýraleifa í huga, þar sem mögulegt smitefni er óvirkjað.


    Líforkuverinu er ætlað að taka við dýrahræjum af öllu landinu í efsta áhættuflokki, en getur einnig tekið við meira efni ef komi upp áföll, s.s. sauðfjárriða eða aðrir dýrasjúkdómar sem krefjast niðurskurðar. Það er mikilvægt hverju landi að geta tekist á við slík áföll með skilvirkum hætti. 


  • Tekur líforkuver við smituðum dýrahræjum, t.d. ef upp kemur riða?

    Já. Líforkuverið er einmitt hannað til að geta tekið á móti smituðum dýrahræjum á öruggan máta. 


    Í líforkuverinu fer öll vinnsla fram innandyra, bílarnir keyrðir inn í verið og skila af sér efninu í lokað kerfi. Þar er efnið malað, það þrýstisæft og fitan skilin frá. Vinnsla efnisins tryggir að smitefni séu óvirkjuð, en af varúðarástæðum skal nýta afurðirnar sem brennsluefni, en ekki sem fóður eða áburð.


  • Hvað er gert við dýrahræ og dýraleifar í dag?

    Áætlað er að 5.574 tonn af hræjum hafi fallið til á Íslandi árið 2021. Aðeins 313 tonn voru brennd í Kölku en 1.550 tonn voru urðuð á viðurkenndum urðunarstöðum. Það hefur lengi tíðkast hér á landi,  þrátt fyrir að urðun dýraleifa hafi verið óheimil samkvæmt lögum um árabil. 


    Miðað við þessar tölur voru um 3.700 tonnum   af hræjum fargað á einhvern annan máta, ef gefnar forsendur reynast réttar. Líklegast hafa þessi hræ verið grafin heima á bæjum.



Afurðir

  • Hvaða afurðir koma úr líforkuveri?

    Afurðir líforkuversins eru í tvennu formi; kjötmjöls og fitu. Kjötmjölið má nýta sem orkugjafa í brennslu og erlendis er kjötmjöl úr efsta áhættuflokki gjarnan notað
    til að knýja vélar í stóriðju. 


    Fituna má nýta til framleiðslu á lífdísli. Lífdísil er hægt að nota með íblöndun við jarðefnaeldsneyti, sem eldsneyti á báta og skip og sparar því innflutning á jarðefnaeldsneyti. 


  • Hvernig eru afurðirnar unnar?

    Fyrsta skrefið er að hakka niður lífræna efnið í ákveðna kornastærð, því næst fer efnið í gegnum þrýstisæfingu sem óvirkjar möguleg smitefni. Við þetta ferli gufar vatn upp og fitan því næst skilin frá. 


    Eftir standa afurðir í formi fitu og kjötmjöls, sem nýttar eru sem orkugjafar í stað jarðefnaeldsneytis. Þannig verða unnin verðmæti á öruggan og umhverfisvænan hátt úr efni sem nú veldur mikilum vandræðum fyrir heilbrigði dýra, manna og umhverfi.


  • Verður hægt að selja hráfituna?

    Já, hráfitu má selja á heimsmarkaðsverði, annað hvort innanlands eða erlendis. 

  • Hvað er gert við kjötmjölið?

    Lögum samkvæmt má bæði urða kjötmjölið og brenna það.


    Kjötmjölið er því hægt að nota sem brennsluefni í stóriðju eða sem orkugjafa í hátæknibrennslu. Með hugmyndafræði hringrásarhagkerfisins að leiðarljósi er því betra að brenna kjötmjölið. 


  • Er ekki hægt að vinna lífgas (metan) úr dýraleifunum?

    Lífgas er ekki unnið úr dýraleifum í efsta áhættuflokki, CAT1. Vonir standa til þess að á Dysnesi verði lífgasframleiðsla í náinni framtíð, þar sem unnið verður lífgas úr efni í lægri áhættuflokkum. 


    Sömu innviðir geta nýst bæði líforkuveri og lífgasframleiðslu, s.s. gufukatlar, starfsmannaaðstaða og vatnshreinsun, og hægt að ná fram aukinni hagkvæmni í rekstri með slíkri samnýtingu. Horft er til samstarfs við landbúnaðinn og bændur á svæðinu um nýtingu mykju til gasframleiðslu með tíð og tíma. 


Staðsetning

  • Hvar mun líforkuver rísa?

    Líforkuveri ehf. hefur verið úthlutað lóð á Dysnesi í Eyjafirði undir byggingu versins.


    Lóðin sem um ræðir er skilgreind sem athafnasvæði á Aðalskipulagi Hörgársveitar 2012-2024. Einnig liggur fyrir deiliskipulag af svæðinu.   


    Lengi hefur verið litið til grænnar atvinnuuppbyggingar á Dysnesi í Eyjafirði og ánægjulegt ef uppbygging líforkuvers verður fyrsta verkefnið í þeirri vegferð. 

  • Af hverju Dysnes í Eyjafirði?

    Lengi hafa verið uppi hugmyndir um atvinnuuppbyggingu á Dysnesi, en þar eru skipulagðar iðnaðar- og athafnalóðir auk lóða sem ætlaðar eru hafnsækinni starfsemi.


    Landeigendur hafa undanfarin ár litið til grænnar uppbyggingar á svæðinu, sem starfsemi Líforkuvers er svo sannarlega. Að auki liggur Dysnes vel þegar kemur að magni lífræns efnis og flutninga þess. 


  • Þarf líforkuver að fara í gegnum fullt umhverfismat?

    Líforkuver ehf. hefur unnið matskyldufyrirspurn til Skipulagsstofnunar, þar sem óskað var eftir ákvörðun stofnunarinnar um hvort að þörf væri á umhverfismati framkvæmda. 


    Niðurstaða Skipulagsstofnunar var að fyrirhuguð framkvæmd sé ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og skal því ekki háð mati á umhverfisáhrifum. 


  • Hvernig verður hreinlæti í nærumhverfi líforkuvers háttað?

    Mikil áhersla verður lögð á snyrtilega aðkomu og hreinlæti við Líforkuverið. Allt lífrænt efni er unnið í lokuðu kerfi, engin vinnsla eða geymsla efnis fer fram utandyra. 


    Í þeim líforkuverum sem aðstandendur verkefnisins taka sér til fyrirmyndar er umhverfi snyrtilegt, lyktarstjórnun mikil og ýmis starfsemi önnur en vinnsla dýraleifa í nágrenni veranna. Þannig er algengt að gróðurhús séu byggð í nálægð við líforkuver, sem nýta sér fjarvarma og koldíoxíð úr vinnslunni til vaxtarauka grænmetisins. 




  • Er lyktarmengun af líforkuveri?

    Öllu lífrænu efni er ekið inn í verksmiðjuna og fer öll vinnsla fram innandyra. Það er því engin starfsemi með lífrænt efni utandyra. Auk þess er nýtt besta mögulega tækni til þess að lágmarka lyktarmengun. 


    Aldrei er hægt að tryggja að engin lykt fylgi starfsemi af slíku tagi, en ljóst að hægt verður að halda henni í algjöru lágmarki með góðu verklagi og bestu tækni. 


    Í skoðunarferðinni sem farin var haustið 2022 til Noregs var lærdómsríkt að sjá líforkuver starfrækt í nokkurhundruð metra fjarlægð frá íbúabyggð án vandræða eða óþæginda fyrir nágranna þess. 


  • Hversu mikið rafmagn þarf líforkuver?

    Líforkuver er ekki orkufrekur iðnaður, enda er því ætlað að framleiða meiri orku en það nýtir. Gert er ráð fyrir að Líforkuverið noti 2,5 MW rafmagns.


    Til skoðunar er einnig að nota eigin orkugjafa (kjötmjöl eða fitu) til orkunýtingar fyrir a.m.k. hluta vinnslunnar. 


Annað

  • Hvenær verður byrjað að reisa líforkuver og hvenær er áætlað að það verði tilbúið?

    Gert er ráð fyrir að framkvæmdir hefjist árið 2025 og að árið 2027 verði starfsemi hafin.


Er einhverjum spurningum ósvarað?

Sendu okkur skilaboð og við höfum samband eins fljótt og auðið er

Sign up to our newsletter

Share by: