Hvað er líforkuver?

Líforkuver er vinnsla þar sem unnið verður úr dýraleifum í efsta áhættuflokki, svokölluðu CAT1 efni. Undir það falla t.a.m. dýrahræ úr sveitum landsins, sem eiga sér engan góðan farveg í dag og eru að stærstu leyti urðuð. Urðun dýraleifa er ólögleg samkvæmt reglugerðum um aukaafurðir dýra og það er sérlega varhugavert að urða dýraleifar í efsta áhættuflokki vegna smithættu. Urðun lífræns efnis felur einnig í sér losun gróðurhúsalofttegunda og vegur þungt í losunarbókhaldi Íslands.

Nýir innviðir

Með uppbyggingu líforkuvers á Dysnesi verða í fyrsta sinn til innviðir á Íslandi sem taka við dýrahræjum í efsta áhættuflokki til eyðingar og vinnslu, þannig að samræmist lögum um aukaafurðir dýra og fellur að auki að hugmyndafræði hringrásarhagkerfis.

Dýraleifar í hringrás

 Í líforkuveri verður tekið við dýrahræjum ásamt efni sem fellur til við slátrun í efsta áhættuflokki. Efnið er unnið með mölun, þrýstisæfingu og fituskiljun – vinnsluferill sem margir Íslendingar þekkja frá fiskimjölsverksmiðjum.


Skýrar kröfur eru gerðar um meðhöndlun efnis og hafa slíkar vinnslur verið starfræktar í áratugi í öðrum löndum. Vinnslan er því margprófuð og notast við þekkta tækni.


Með vinnslunni er mögulegt smitefni gert óvirkt og því unnt að taka við hræjum dýra sem hafa verið felld vegna sjúkdóma og hafa hingað til verið send til brennslu.


ORKAN Í LÍFMASSANUM

Af varúðarástæðum skal tryggt að afurðir úr vinnslunni eigi sér ekki leið aftur inn í fæðukeðjuna, hvorki í formi fóðurs né jarðvegsbætis. Afurðir líforkuversins verða í formi fitu og kjötmjöls, hvorutveggja orkuríkt efni, sem nota má í stað jarðefnaeldsneytis og aðstoða þannig samfélagið í orkuskiptum.

Share by: